Lestur

Er lestur barnsins hægur og lítill áhugi á lestri ?

Börn sem giska mikið við lesturinn, eru hæg og hikandi í lestri eiga oft í vanda með að mynda örugg tengsl milli stafs og hljóðs og sama kemur fram  í ritun orða.  Ef barnið forðast að lesa heima er mikilvægt að finna út hvað hamlar og leita ráða. Pantaðu viðtal.  Hafa samband

Hvernig börn læra að lesa hefur mikið verið rannsakað á undanförnum árum, það er að segja hvað gerist hjá barninu sjálfu þegar það nær tökum á lestri. Að beina sjónum að börnunum hefur leitt til aukinnar þekkingar á því hvernig hægt er að styrkja, örva og undirbúa börn fyrir formlegt lestrarnám í skóla og einnig hvaða börn kynnu að vera í áhættuhóp varðandi erfiðleika við lestrarnám.

Lestur byggir á tungumálinu.

Grunnur að lestrarnámi hefst þegar á fyrstu mánuðum barnsins þegar foreldrar byrja að skoða myndabækur og lesa fyrir börnin, það byggir undir góðan orðaforða og málþekkingu. Besti undirbúningur fyrir lestrarnám barna er því að lesa fyrir þau og halda að þeim allskyns efni sem styður við málþroska, orðaforða og tjáningu. Síðan þarf að halda áfram að lesa fyrir börn eftir því sem málþroska og tali vindur fram og einnig þegar þau ná tökum á lestri.

Lestrarnám er ferli frá ungbarnastigi gegnum leikskólastigið þar sem unnið er með skipulagða málörvun og í fyrstu bekki grunnskóla þar sem barnið nær oftast tökum á því að lesa orð án fyrirhafnar. Barnið nær  tökum á lestrartækninni og byggir upp sjónminni á rithátt orða og það er örugg leið til að lesa texta hratt og vel. Þarna er kominn ákveðinn grunnur svo að athyglin getur farið í að byggja upp lesskilning sem er markmið lestursins.

 

Lestur þarf að læra og lestrarnám er hugrænt ferli þar sem margir þættir þurfa að vinna saman.

Það tekur börn mislangan tíma að fara í gegnum þetta ferli en flest börn eru búin að ná tökum á bókstöfunum og geta lesið létta texta í lok 1. – 2.  bekkjar í grunnskóla. Vitneskja foreldra um þessa þróun hjálpar þeim til að átta sig á hvar barnið er statt hverju sinni. Mikill einstaklingsmunur er á þróun læsis, sum börn ná góðum tökum á lestri án mikillar kennslu, önnur þurfa markvissa kennslu og ná þá góðum tökum.

Börnum sem eru lengi að ná tökum á bókstöfum og hljóðum þrátt fyrir markvissa kennslu og þjálfun heima þarf að huga sérstaklega vel að, þau eru oft í áhættuhóp vegna lestrarvanda, leshömlunar. Bókstafaspilin

Undanfari bókstafsstigs

Börn þekkja oft heil orð út frá myndum, eða auglýsingum sem þau sjá oft. Þau þekkja oft stafinn sinn og nafnið sitt sem heild en vinna ekki með hljóð bókstafanna. Þau nýtja sér ekki bókstafi til að lesa orð eða tengja hljóð talmálsins við bókstafi.

Bókstafsstig að hluta

Hér hafa börnin lært að þekkja nokkra bókstafi og nýta sér þá við lestur orða en þau geta ekki greint sundur öll hljóð og bókstafi af nákvæmni og eru því óörugg og ruglast auðveldlega. Hér skiptir máli hversu næm þau eru á hljóð tungumálsins og örugg  að greina á milli þeirra. Þetta er kallað hljóðvitund (phonemic awarness). Hljóðvitund er meðvitund um hljóðin sem byggja málið upp og færnin til að greina á milli þeirra. Nemendur með lestrarvanda, leshömlun (dyslexia) eru oft lengi að ná öruggum tökum á bókstöfum og hljóðum vegna veikleika í hljóðkerfiþætti tungumálsins og þurfa mikla þjálfun og endurtekningu.

Fullkomið bókstafsstig

Hér hafa börn náð öruggum tökum á tengslum bókstafa og hljóða, þau sundurgreina orð niður í einstök hljóð og lesa ný orð sem þau hafa ekki áður séð með því að beita þessari þekkingu sinni. Við lestur byggist smám saman upp orðabanki í sjónrænu langtímaminni og börnin ná meiri leshraða og öryggi. Ritun orða er einnig mjög góð leið til að  byggja upp sjónrænan orðaforða, við ritun þarf að sundurgreina orð niður í bókstafi og hljóð og því er mikilvægt að nýta þessar leiðir báðar í lestrarnámi. Börn eru misjafnlega lengi á þessu stigi og sum þurfa mikla þjálfun, gæta þarf að lesefninu, að þeim sé ekki boðið of þungt efni. Flest börn ættu að ná þessu stigi við lok 2. -3. árs  í grunnskóla.

Samtengt heildrænt bókstafsstig

Barnið les nú ekki lengur staf fyrir staf heldur þekkir orð eða orðhluta í heild og festir í sjónrænu minni. Það les ný orð af öryggi og þegar þessu stigi er náð er kominn grunnur að sjálfvirkum sjónrænum lestri. Smám saman byggist upp orðaforði gegnum lestur og því er mikilvægt að halda að börnum fjölbreyttu lesefni sem undirbýr þau fyrir skilning á námsefni í skólanum. Lestur er að síðan að þróast allt lífið með aldri og þroska þegar sífellt er tekist á við margbrotnara lesefni.

Heimildir
  • Catts & Kamhi, 2012
  • Ehri, L. C. (2005). Development of sight word reading: Phases and findings. Í M. J. Snowling og C. Hulme ( ritstj). The  science of reading: A handbook (bls 135-154). Malden, MA: Blackwell Publishing
  • Steinunn Torfadóttir ritstýrði: Leið til læsis lesskimun fyrir fyrsta bekk grunnskóla, handbók.

Næstu skref

Skoðaðu spurningalistann og bókstafaspilin.