Leshömlun

Hvað er átt við þegar talað er um leshömlun ?

Leshömlun ( Dyslexía ) er ekki veikindi eða fötlun heldur sértækur námsörðugleiki af taugalíffræðilegum uppruna sem getur haft hamlandi áhrif víða í námi. Einkennin birtast í erfiðleikum með nákvæman, sjálfvirkan lestur og slakri færni í stafsetningu og umskráningu. Erfiðleikana má í flestum tilfellum rekja til vanda við úrvinnslu málhljóða sem er ekki í samræmi við aðra vitsmunalega hæfni einstaklingsins og koma fram þrátt fyrir vandaða lestrarkennslu. Dyslexía getur leitt til erfiðleika með lesskilning og ónógrar lestrarreynslu, sem aftur getur komið niður á þróun orðaforða og öflun þekkingar í gegnum lestur.
www.interdys.org

Merki um leshömlun geta komið fram á mismunandi aldri,  oft fyrst í tal- og málvanda á leikskólaaldri eða þegar barnið fer að læra bókstafi og lesa og skrifa í fyrstu bekkjum grunnskóla.  Einnig síðar þegar reyna fer á meira á lestrarfærni, stafsetningu og ritun í efri bekkjum grunnskóla eða á fyrstu árum í framhaldsskóla. Með góðri kennslu og þjálfun sem oft tekur mikinn tíma alla skólagönguna geta flestir einstaklingar með dyslexíu náð viðunandi tökum á lestri, en oft verða stafsetningarerfiðleikar viðvarandi.

Margir nemendur með leshömlun finna ekki fyrir verulegum vanda fyrr en nám er hafið í háskóla, þeir hafa þá sögu um þessa erfiðleika en hafa tekist á við þá með þjálfun og skipulagðri vinnu og góðum stuðningi og hvatningu frá grunnskólaaldri.

Aldrei of seint

Margir nemendur sem hætta námi á fyrstu árum í framhaldskóla vegna lélegs námsárangurs hafa ekki fullnægjandi skýringu á vanda sínum en finna oft fyrir uppgjöf og kvíða.  Erfiðleikar í námi gætu átt rót í leshömlun sem gæti verið undirliggjandi ástæða í einhverjum tilvikum.

Afleiddar afleiðingar leshömlunar eru oft kvíði, stress og þunglyndi sem meðal annars hamlar oft hreyfanleika á vinnumarkaði.

Ert þú með leshömlun – taktu prófið

 

Næstu skref

Skoðaðu námskeiðin eða hafðu samband við Lestrarmiðstöð.